15.8.2008 | 09:56
Ritstuldur á háu stigi!!!
Margir mætir menn hafa reynt.
Frægast er líklega copy/paste vinna Hannesar Hólmsteins við vinnslu Laxness.
Þar á eftir er kannski Villi lögmaður.
Endileg komið með fleiri dæmi.
Allavega þá sá ég snilldarlega skrifaðan pistil á www.dv.is sem ég ákvað að birta hér í heild sinni.
Fékk mig til að brosa út í bæði alveg gapandi meira að segja.
"Svarthöfði er fyrir lifandis löngu orðinn kótilettukall og man varla lengur þá tíð er hann var hippi og leiddi Svarthöfðu um hæðir og hóla en hún var þá smart. Svarthöfði er ekki alki fyrir fimm aura en gerir þó allt miklu betur en slappi fúll á móti. Svarthöfði vinnur langan vinnudag og sinnir þess á milli fjölmörgum áhugamálum sínum og smíðar þar á meðal skútur, skerpir skauta og meikar þrumu osta og grauta. Haltu kjafti!
Brauðstritið og skautaskerpingarnar valda því óhjákvæmilega að barnauppeldið situr nokkuð á hakanum og Svarthöfði fóðrar því börnin óhóflega oft með súrmjólk í hádeginu og seríósi á kvöldin og stundum á hann það til að missa stjórn á sér í stressinu og segir krökkunum að þegja á meðan fréttatíminn er. Unglingurinn á heimili Svarthöfða hefur illu heilli tekið sér suma lesti Svarthöfða til fyrirmyndar og reynir að skjóta sér undan ábyrgð og skyldum og mælir því göturnar með vottorð í leikfimi og skoðar bæinn sinn. Svarthöfða er að vísu hulin ráðgáta hversu miklum tíma gelgjan getur eytt á Laugaveginum sem er niðurníddur og ljótur og þar er ekki margt að sjá.
Svarthöfða finnst framtíðarhorfur ávaxta lenda sinna heldur ekkert sérstaklega bjartar og sér fyrir sér að ef unglingsstúlkan fari ekki að sjá villur síns Laugavegar muni hún enda fimmtán ára á föstu. Gerist það er óhjákvæmilegt að hún verði sextán ára í sambúð, sautján ára lamin, nítján ára skilin og fríki svo að lokum út.
Sjálfur minnist Svarthöfði þess þegar hann var með unglingabólu á nefinu og náði henni ekki af. Heimurinn og lífið voru einfaldari í þá daga enda saug Svarthöfði litli bara sitt kók í gegnum lakkrísrör og borðaði Prins Póló á meðan hann horfði á Löður á einu sjónvarpsstöðinni. Internet, GSM-símar, Skjár einn og PlayStation flæktu ekki tilveru Svarthöfða og því þurfti ekki annað en vítamín frá ömmu til þess að koma honum til manns.
Amma læddi vítamíninu, sem Svarthöfða kraftinn allan gaf, ofan í hann á meðan hann svaf með smurolíukönnu og stórri trekt. Svarthöfði óx því upp og varð eins og klettur þannig að þegar hann datt heyrðist doj-joj-joj-joj-joj. Svarthöfði var nefnilega úr járni og þess vegna heyrðist doj-joj-joj-joj-joj. doj-joj-joj-joj-joj.
Svarthöfði hefur auðvitað látið nokkuð á sjá og hefur nú meiri áhyggjur af kreppunni en því að hingað komi engisprettufaraldur. Hann veit eins og Haraldur að hér er of kalt. Þrátt fyrir kreppuþunglyndi og kótilettukarlmennsku ákvað Svarthöfði að bregða undir sig betri fætinum á laugardaginn og fara á ball þótt hundrað ár séu síðan hann var með heví hár. Eyrnalokkurinn og strípurnar heyra líka sögunni til eins og lakkrísrörið en þegar Svarthöfði hafði sopið slatta af karlakóki stakk hann upp á því að þau hjónin færu á Organ að hlusta á þann mikla meistara Bjartmar Guðlaugsson. Svarthöfða lyftist öll upp, beyglaði munninn og maskaraði augun. Svarthöfði blandaði frú sinni í glas, ekki mikið kók ekki mikinn ís, og rétti henni kveikjarann.
Þegar Svarthöfði sá ölvuðum frygðarglampa bregða fyrir í augum konunnar sem var einu sinni smart yngdist hann upp um átján ár á nóinu og svo drifu þau sig svo þau misstu ekki af Bjartmari og sjóinu. Og ekki sveik Bjartmar þau skötuhjúin á Organ og þau leiddust heim upp Laugaveginn sem var ekki lengur ljótur heldur minnti hann á grasivaxnar hæðir og hóla. Ölvaður af karlakóki og djúpvitrum textum Bjartmars þakkaði Svarthöfði sínum sæla að hans þjakaða þjóð eigi enn skáld sem skynja veruleikann og koma honum til skila af lífi og sál. Svarthöfði vonar að Bjartmar komi sem oftast í bæinn úr sveitinni með ný lög. Hann er von Svarthöfða í kreppunni. doj-joj-joj-joj-joj. doj-joj-joj-joj-joj. "
Hugleiðing/Speki dagsins:
Langi þig að gefa einhverjum góða gjöf veittu þeim athygli og brot af tíma þínum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.