Bless bless elsku afi

Ég ákvað að skella inn minningargreininni sem ég skrifaði um afa.
Hún var meira skrifuð fyrir mig og til þess að fá mig til að einbeita mér að fallegum hugsunum í stað þess að einbeita mér að sorginni og söknuðnum.
Falleg athöfn í gær þegar afi var kvaddur.

Afa lést 2. maí og jarðaður 9. maí.

Bless bless elsku afi.

Það er alltaf sárt og því fylgir djúp sorg að missa náinn ættingja og góðan vin.
Það hlaut að koma að því að ég þyrfti að setjast niður og skrifa mina fyrstu minningargrein. Auðvitað hefði helst kosið að þurfa þess ekki nú, en þannig er gangur lífsins.  Lífsgöngu afa er lokið og tími til að kveðja.
Fyrsta minning mín um afa er þegar ég fór með honum í Kaupfélag verkamanna í Langholti, þar vann afi þegar ég var lítill. Ég minnist þess að hafa eitt sinn kvabbað í afa og beðið hann um að gefa mér forláta sleikjó sem leit út eins og hamar. Hann var með tréskafti og var appelsínugulur á litinn. Útilegunum með afa og ömmu þegar ég var lítill gleymi ég heldur aldrei. Heimatilbúnu nestinu og varginum við Mývatn. Aldrei man ég eftir afa öðruvísi en jákvæðum, hressum prakkara í kringum barnabörnin og svo barna- barnabörnin, Þá var hann iðulega með annað hvort bók í hönd að lesa fyrir gullin sín eða leika við þau á annan hátt. Ekki man ég afa reiðan eða því að hann hafi skammað mig, baldna drenginn mig, ótrúlegt en satt. Hann þurfti þess ekki, virðing mín fyrir afa var alltaf mikil. Ég mun reyna eftir fremsta megni að tileinka mér það hvernig hann kom fram við fólk, það kenndi hann mér. Hann var mín fyrirmynd. Ég kem til með að muna hann að leik með litlu börnunum, í keppni við Magnús Hólm, um það hvort hann eða afi nái að grípa um efsta hluta stafsins, sá sem því náði vann. Einhverra hluta vegna man ég ekki eftir því að afi hafi unnið slíka keppni. Göngugrindin hans afa var líka furðufyrirbæri sem krílin þurftu að skoða, sniðug með sæti og alles.
Ég trúi því að þegar fólk yfirgefur þetta líf bíði þess eitthvað betra. Ég trúi því að afi sé á góðum stað í góðum félagsskap. Í mínum huga er það jákvætt að fólk fái að fara friðsællega og þurfi ekki að heyja erfiða baráttu síðustu daga, vikur eða ár ævi sinnar. Afi átti það besta skilið hann var gull af manni.

Minning um góðan mann mun lifa áfram í hjörtum okkar og í arfleifð hans sem eru börnin, afabörn og langafabörnin. Öll hafa þau erft eitthvað af góðu eiginleikum hans.

Við elskum þig og hugsum til þín með hlýhug elsku afi okkar.
Freyr Hólm og börn.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Einstaklega hjartahlýr og brosmildur maður -
Gleði, jákvæðni og lífshamingja skein úr hjarta, huga og andliti þessa manns. 
 
Þakka þér - það var heiður að fá að kynnast honum afa þínum þó stutt stæði. 

Sendi þér og þínum mínar innilegustu samúðarkveðjur. 

Linda Lea Bogadóttir, 11.5.2008 kl. 02:43

2 identicon

Takk fyrir helgina Freysi minn og voða falleg grein hjá þér.

Lára María frænka (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband