Stóri sannleikurinn um kosningar og efndir loforða...

Steingrímur Sigfússon er kominn til himna þar sem hann hitti Lykla-Pétur.
Lykla-Pétur varð svolítið vandaræðalegur: "Eh, velkominn," sagði hann
loks. "Þakka þér fyrir," sagði Steingrímur, "ég vissi að ég mundi enda
hér".

"Nja," sagði Pétur , "þú hefur lifað sæmilega frómu lífi, eða þannig,
svo við vildum gjarnan hafa þig hér en því eru ekki allir sammála. Þú
ert umdeildur maður og það hafa fleiri áhuga á þér en við hér í
himnaríki. Við urðum að halda fund með djöflinum þar sem þetta var
rætt og það endaði með því að við gerðum samning við hann."

"Samning!" Hrópaði Steingrímur og var sýnilega brugðið.

"Það er nú ekki alslæmt," sagði Pétur, "en djöfullinn sagðist nú þegar
hafa flesta vini þína svo við sömdum um að þú eyddir einum sólarhring
í helvíti og öðrum hér hjá okkur í himnaríki og svo velur þú sjálfur
hvar þú dvelur um aldur og eilífð.

Steingrímur maldaði svolítið í móinn en samningur er jú samningur svo
Pétur vísaði honum á lyftuna, kvaddi hann og sagðist sjá hann eftir
sólarhring. Steingrímur ýtti á hnapp merktan "helvíti" í lyftunni og
seig svo langt, langt niður á við þar til lyftan stoppaði við
kolsvarta hurð. Þegar dyrnar opnuðust stóð djöfullinn sjálfur fyrir
innan. "Gamli vinur, vertu hjartanlega velkominn, gakktu í bæinn,"
sagði kölski.

Steingrímur fór inn og við honum blasti risastór golfvöllur. Margir af
hans gömlu flokksbræðrum léku golf á vellinum eða stóðu í smáhópum og
töluðu saman. Golfvöllurinn var fullkominn. Það var heitt í lofti og
út um allt voru léttklæddar, snoppufríðar djöflastelpur sem færðu
mönnum bjór og aðra kalda drykki. Steingrímur lék golf allan daginn og
um kvöldið bauð Svavar Gestsson, honum í "gúrme"grill ásamt Indriða,
Álfheiði og fleiri góðum vinum með öllu góðgæti sem hugsast gat. Fáum
sögum fer af því hvernig Steingrímur eyddi nóttinni en sólarhringurinn
í helvíti var fljótur að líða og morguninn eftir var honum vísað á
lyftuna á ný.

Þegar Steingrímur kom aftur til himnaríkis var hann efins um ágæti
þess staðar en það var samt sem áður tekið vel á móti honum. Hann var
klæddur í englaföt og fengin harpa til að leika á. Hann eyddi deginum
með því að ganga um milli skýjanna, hlustaði á fagran fuglasöng og
borðaði ferska ávexti. Hann fékk reyndar í magann af ávöxtunum og það
pirraði hann að sjá Davíð og Þorgerði sitja saman á skýi og leika á
hörpur af mikilli innlifun.

Um kvöldið kom Pétur. "Nú ertu búinn að dvelja heilan sólarhring í
helvíti og heilan dag hér í himnaríki. Ertu kannski búinn að ákveða
þig?" Spurði Lykla-Pétur.

"Hmm," sagði Steingrímur, ég átti nú kannski ekki von á því en ég held
að ég velji helvíti, þrátt fyrir allt. Það er heppilegasti staðurinn
fyrir mig." Andlitið datt af Pétri og hann reyndi hvað hann gat að fá
Steingrím ofan af ákvörðun sinni. En Steingrímur var harðákveðinn.

Á ný fór Steingrímur með lyftunni niður í helvíti og djöfullinn tók
aftur á móti honum. Hann kippti Steingrími inn en þar var þá allt öðru
vísi umhorfs en daginn áður. Brennisteinsfnykinn lagði um allt og
skerandi sársaukavein flokksbræðra hans og vina fylltu loftið. "En
hvar er golfvöllurinn?" Spurði Steingrímur. "Og djöflastelpurnar,
bjórinn og grillið?

"Ah," sagði djöfullinn, "þú skilur þetta manna best, í gær var
kosningabaráttan í fullum gangi. En nú ertu búinn að kjósa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband